mánudagur, nóvember 20, 2006

Je pense, donc je suis....

Oft stend ég mig að því að hugsa um tilgang lífsins. Er það ekki eðlilegt? Ég velti því fyrir mér af hverju ég er ég. Hafiði pælt í því? Segjum sem svo ef mamma mín og pabbi hefðu ekki kynnst væri ég ekki til. Er þetta allt saman tilviljun eða fyrir fam planað af eitthverjum sem er heldri en við öll.

Ég er trúuð, viðurkenni það fúslega. Enda stóð ég fyrir framan altarið þegar ég fermdist og staðfesti trú mína. Það var ekkert plat. Ég trúi að það sé eitthver/einhvað sem er yfir okkur. Vakir yfir okkur. Ég held samt að maður býr sjálfur til sín örlög, þau eru ekki fyrir fam ákveðin. Maður lendir á krossgötu og það er á þeirri krossgötu sem maður hefur val, og það val ákvarðar næsta skref. Það er alltaf hægt að breyta – þar af leiðandi stjórnar maður sjálfur sínum eigin örlögum.

Sagt er að það sé aðeins lagt á okkur þær byrgðir sem við getum staðið undir. Er það í alvöru þannig? Kemst fólk alltaf í gegnum þá erfiðleika sem þeir kljást við. Eitt veit ég þó, maður kemst ekki í gegnum þá einn. Maður þarf alltaf að reiða sig á einhvern annan. Sjáum til dæmis ef maður er veikur – alvarlega, þá leitar maður til læknis. Þegar eitthvað hrjáir manna andlega leitar maður til þann sem maður treystir best. Stundum er það menntaður einstaklingur í sálinni eða einfaldlega mjög góður vinur. Lífið gengur ekkert ef fólk hjálpast ekki að. Að hjálpa öðrum fær mann líka til að líða vel. Enda engin furða að góðverk heita góðverk. Segir sig sjálft.

Af hverju er þá stríð? Af hverju er fólk svona gráðugt? Af hverju er ekki hægt að finna einfalda leið út úr hlutum. Hví kennum við börnum að “öll dýrin í skóginum eiga að vera vinir” en förum svo ekki eftir því sjálf!

Af hverju getur fólk ekki sætt sig við það að það eru ekkert allir eins. Af hverju ekki að reyna skilja það sem öðruvísi er, í staðin fyrir að dæma það og kasta fyrsta steininum í hugsunarleysi. Er ekki betra að stoppa, hugsa og allavega reyna að setja sig í spor annarra áður en maður dæmir. Það er enginn fullkominn, langt í frá.

Að lifa í hatri er engin leið til að lifa. Þegar maður hatar einhvern kemur það einungis niður á manni sjálfum. Því sá sem maður hatar finnur ekkert endilega fyrir því. Þetta verður aðeins baggi á herðum þess sem hatar. Hann finnur mest fyrir því – Pirring og illindi í garð einhvers annars er þungur baggi að bera. Því að gera sjálfum sér það?

Fyrirgefning er merkilegt fyrirbæri. Það er ekkert auðvelt að fyrirgefa. Held að það sé barasta eitt af því erfiðasta sem maður þarf að gera. Sá sem kann að fyrirgefa er stór manneskja. Því það sem er einu sinni brotið er ekki svo auðvelt að laga.En enn þá stærri er sú manneskja sem getur beðist afsökunar, þó svo að sú manneskja telji sig hafa rétt á standa. Að taka fyrsta skrefið er alltaf erfiðast. En sínir, að mínu mati, hversu stór og merkilegur sá einstaklingur er. Því maður þarf ekkert alltaf að hafa rétt fyrir sér.

Jáh lífið er flókið fyrirbæri, sem ég botna ekkert í. Kannski er það líka bara hið besta mál. Maður á ekkert endilega að skilja alla hluti.

Engin ummæli: